Þá er ég kominn heim eftir Svíþjóðarferðina. Mikið er þetta búin að vera skemmtileg ferð, þótt veðrið hafi verið leiðinlegt framanaf. Ég fór í vísitu til Lunds og heilsaði uppá félagana þar. Það varð uppi fótur og fit á kennarastofunni þegar ég rak inn skallann. Sune svelgdist á kaffinu sínu. Á dauða sínum átti hann von en ekki mér. Sem betur fer gekk allt vel fyrir sig. Ég hef ákveðið að erfa þessi mál ekki við nokkurn mann en eins og vinir mínir vita þá var ég flæmdur frá vinnu og beittur nokkrum bolabrögðum af samstarfsfélögum mínum, þar á meðal Sune. Ég fann fyrir vaxandi öfund í minn garð en það er alþekkt vandamál hjá gáfuðum mönnum. Það var oft þungt í kollegunum eftir snarpar orðræður þar sem þeir þurftu að láta í minni pokann og stóðu eftir ráðþrota og reiðir. Til að klekkja á mér notuðu þeir lygar og sáðu tortryggni í minn garð. En ég ákvað að hugsa ekki frekar um það. Lundur er of fallegur staður til að sverta með slíkum minningum.
Eftir að hafa eytt helgi í Lundi var ferðinni heitið til Lillhagen. Fyrir þá sem ekki vita þá er Lillhagen sjálfbært samfélag sem undirritaður bjó í árum saman. Fyrir þá sem vilja kynna sér málið get ég bent á afbrags góða síðu: Lífræn samfélög í Svíþjóð
Mikið var gott að koma heim og dveljast með raunverulegum vinum. Ég er endurnærður á sál og líkama eftir dvölina og hlakka til að taka á móti rísandi sól hér heima.
Monday, March 12, 2007
Subscribe to:
Posts (Atom)