Monday, March 12, 2007

Du gamla, du fria

Þá er ég kominn heim eftir Svíþjóðarferðina. Mikið er þetta búin að vera skemmtileg ferð, þótt veðrið hafi verið leiðinlegt framanaf. Ég fór í vísitu til Lunds og heilsaði uppá félagana þar. Það varð uppi fótur og fit á kennarastofunni þegar ég rak inn skallann. Sune svelgdist á kaffinu sínu. Á dauða sínum átti hann von en ekki mér. Sem betur fer gekk allt vel fyrir sig. Ég hef ákveðið að erfa þessi mál ekki við nokkurn mann en eins og vinir mínir vita þá var ég flæmdur frá vinnu og beittur nokkrum bolabrögðum af samstarfsfélögum mínum, þar á meðal Sune. Ég fann fyrir vaxandi öfund í minn garð en það er alþekkt vandamál hjá gáfuðum mönnum. Það var oft þungt í kollegunum eftir snarpar orðræður þar sem þeir þurftu að láta í minni pokann og stóðu eftir ráðþrota og reiðir. Til að klekkja á mér notuðu þeir lygar og sáðu tortryggni í minn garð. En ég ákvað að hugsa ekki frekar um það. Lundur er of fallegur staður til að sverta með slíkum minningum.
Eftir að hafa eytt helgi í Lundi var ferðinni heitið til Lillhagen. Fyrir þá sem ekki vita þá er Lillhagen sjálfbært samfélag sem undirritaður bjó í árum saman. Fyrir þá sem vilja kynna sér málið get ég bent á afbrags góða síðu: Lífræn samfélög í Svíþjóð
Mikið var gott að koma heim og dveljast með raunverulegum vinum. Ég er endurnærður á sál og líkama eftir dvölina og hlakka til að taka á móti rísandi sól hér heima.

Tuesday, February 6, 2007

Hljóðvarpið



Mikil endalaus andskotans ládeyða ríkir á öldum ljósvakans hér á landi. Er virkilega enginn sem leggur í þessar öldur? Fyrir utan gömlu og góðu Gufuna er fátt að hlusta á, nema ef til vill Útvarp Sögu. Þar eru oft góðir þættir og snarpar umræður. Þar fer Arnþrúður Karlsdóttir fremst í flokki. Hún er góður útvarpsmaður. En það er leiðinlegt hvað margir heimskingjar hringja inn til hennar, það er varla svo gott að meðalgreindur maður opni þar kjaftinn. Arnþrúður á betra skilið. Undiritaður hefur reyndar nokkrum sinnum slegið á þráðinn og blandað sér í umræður en oftast þó til að leiðrétta málvillur og staðreyndarugling. Annars hringdi ég á útvarp Sögu í gærkvöldi til að leiðrétta hvimleiða orðvillu. Það var samt ekki hjá Arnþrúði heldur hjá ónefndum karli. Hann var að ræða framboðsmál eldri borgara og stagaðist á orðinu "heldri" borgarar. Ég stóðst ekki mátið og benti honum á villu síns myrka vegar. Heldri borgari er aðalsmaður eða snobbhænsn og hefur ekkert með aldur að gera. Tvítugur maður getur verið "heldri borgari" ef hann býr í stéttarskiptu þjóðfélagi og er af "góðum og göfugum" ættum. Eldri borgari er annað mál. Hann er stéttlaus og einfaldlega gamall.
En aftur að útvarpsmálum. Sem betur fer er hægt að hlusta á útvarpið í gegnum internetið. Ég læt hér til gamans fljóta með fyrir áhugasama, slóð sem vísar á útvarpsstöð sem ég hlustaði mikið á þegar ég bjó í Svíþjóð. Svona á útvarp að vera!

Thursday, February 1, 2007

Hálkublettir

Ég er einn af þeim fjölmörgu Íslendingum sem hefi áhuga á veðri. Janúarmánuður hefur því verið sérstaklega áhugaverður fyrir mig því hann er einn sá kaldasti síðan mælingar hófust. Ég hef ekki farið varhluta af því þar sem ég nota ekki bíl heldur reiðhjól og tvo jafnfljóta sem mér voru áskapaðir við fæðingu.
Gróðurhúsaáhrif og hlýnun jarðar eru mikið áhyggjuefni fyrir mig jafnt sem aðra. Útblástur bíla og iðnaður er að gera jörðina óbyggilega. Regnskógarnir falla og verða líklega horfnir á næstu 20-30 árum ef ekkert verður að gert. Dýrategundum fer líka fækkandi og telja vísindamenn að 500 plöntum og dýrategundum sé útrýmt á degi hverjum.
En aftur að veðri. Sú breyting sem mér finnst einna athyglisverðust í Íslenskri veðráttu eru breytingar á frosti. Mikið finnst mér skrítið áhugaleysi fjölmiðla á því. Ég hef skrifað Veðurstofu ítarlegt bréf útaf því. Þeir svöruðu því engu. Einnig hef ég sent Morgunblaðinu bréfið til birtingar en á þeim bæ hafa menn ekki áhuga á frosti. Mér finnst frysta hraðar en áður. Það snöggfrystir skyndilega, á augabragði myndast hálkublettir og slysahætta. Aðfaranótt þriðjudags fylgdist ég með bifreið sem rann stjórnlaust niður brekkuna í Bolholti. Ökumaður hafði lent á hálkubletti eftir að snöggfrysti. Á mínum vinnustað passa ég vel uppá þetta og sendi starfsmenn oft út að salta í kringum bensínstöðina. Ég blanda saltið líka með sandi í hlutföllunum 60 á móti 40. Mér hefur sýnst það virka betur.

Friday, January 26, 2007

Reglur

Mikið finnst mér skrítið hvað margir virðast eiga erfitt með að fylgja reglum. Þær reglur sem fólk er að brjóta eru yfirleitt mjög einfaldar, það er ekki það að það skilji ekki hvað má og hvað má ekki, því virðist einfaldlega vera sama. Sumt fólk vill að reglur sem settar eru séu beygðar og sveigar eftir því sem því sjálfu hentar. Á minum vinnustað eru nokkrar einfaldar reglur sem við biðjum viðskiptavini okkar að fara eftir. Allar eru þessar reglur settar af ástæðu. Samt þarf ég endurtekið að útskýra fyrir fólki reglurnar og verja þær. Ég starfa sem vaktstjóri á fjölmennri bensínstöð í Reykjavík á nóttunni. Fyrir utan stöðina er þvottaplan þar sem viðskiptavinum gefst kostur á að þrífa bifreiðar sínar endurgjaldslaust. Fyrir um ári ákváðum við starfmenn í sameiningu að loka fyrir vatn á þvottaplaninu frá miðnætti til átta á morgnana, frá 20 september til 15 apríl eftir að starfsmaður rann til og tognaði á hendi eftir að einhver hafði gleymt að skrúfa fyrir vatnið með þeim afleiðingum að það fraus.
Kvöld eftir kvöld þarf ég samt að standa í stappi og þrefi við fólk sem vill nota planið eftir lokun. Síðast í nótt kom inn maður sem ákvað að þvo bíl sinn rétt fyrir miðnætti. Þegar skrúfað var fyrir vatnið brást hann hinn versti við og jós yfir mig fúkyrðum og skömmum. Ef ég ætti að eltast við duttlunga hvers og eins hefði ég ekki í neinu öðru að snúast. Reglur eru ekki settar af ástæðulausu. Þær þjóna mikilvægum tilgangi og þær bera að halda í heiðri. Hvar væri umferðin stödd ef engar væru umferðarreglurnar og allir keyrðu bara eins og þeim sýndist? Það er ekki í lagi að aka yfir á rauðu ljósi þótt enginn annar bíll sé nálægt. Rautt ljós þýðir STOPP! Eins er ekki í lagi að skrúfa frá vatni á þvottaplaninu til að leyfa einhverjum að klára að þvo bíl sinn. Og það skiptir engu máli hvort það er frost í augnablikinu eða ekki.
Mér finnst Íslendingar ekki bera neina virðingu fyrir reglum. Hér gætum við enn og aftur tekið okkur Svía til fyrirmyndar. Svíar eru duglegir að setja reglur þar sem við á. Og öfugt við okkur Íslendinga þá fara þeir eftir þeim.
Annars er allt búið að ganga vel. Bjarnfreður hefur að vísu verið lasin og rúmliggjandi alla vikuna þannig að ég hef ekki haft mikinn tíma til skrifta hér. Ég gróf upp nokkrar gamlar ljóðabækur og hef stytt henni stundir við ljóðalestur. Ég var bara að ryfja upp hvað Norðurlöndin hafa gefið af sér mörg góð ljóðaskáld. Skrítið havð það gleymist oft auðveldlega.

Sunday, January 21, 2007

Morð á Íslandi?

Ég átti skemmtilegar deilur við viðskiptavin í nótt. Eftir að hafa keypt benzín bað hann mig um samloku með roast beef, sem var ekki til. Ég benti á nokkrar aðrar tegundir sem voru til en honum leist ekki á það. Þá bauð ég honum heimabakaða brauðið sem ég er að selja og húmusið sem Bjarnfreður gerði og ég er með til sölu á stöðinni. Hann vildi það ekki. Skrítið hvað margt fólk hefur mikla fordóma gegn svokölluðu heilsufæði. Hann hreinlega fussaði og sveiaði eins og ég hefði verið að bjóða honum eitur. Ég benti honum á að mannslíkaminn er ekki gerður til að brjóta niður kjöt. Menn eru ekki kjötætur. Og þar að auki er siðferðislega rangt að myrða dýr. Það er villimennska. Það er margsannað að flest ofurgreint fólk er jurtaætur. Ég hef verið jurtaæta frá fæðingu. Bjarnfreður hafði mig ekki einu sinni á brjósti heldur fékk ég möndlumjólk. Hún er næringarríkari en móðurmjólk. Í dag er ég grænmetisæta af hugsjónarástæðum. Fyrir mér er enginn munur á að drepa dýr eða mann. Að myrða kind og éta hana er fyrir mér jafn viðurstyggileg athöfn og að myrða manneskju og leggja hold hennar sér til munns. Sá sem drepur dýr er fyrir mér sekur um morð.
Viðbrögð mannsins komu mér verulega á óvart. Hann rauk upp á nef sér, hrópaði svívirðingar að mér og rauk svo á dýr. Þvílík viðbrögð. Enda var hann rökþrota. Kannski varð það honum ofviða að horfast í augu við sekt sína. Fólk grípur oft til óláta þegar það fer halloka í rökræðum. Ég hló bara að þessu. Maður getur nú ekki verið að æsa sig yfir öllum þeim furðufuglum sem slæðast inn á stöðina á nóttunni
Eftir því sem ég kynnist fólki betur þess betur líkar mér við smáfuglana.

Saturday, January 20, 2007

Bóndadagurinn

Þar sem ég vinn næturvinnu byrjaði Bóndadagurinn hjá mér ekki fyrr en að kvöldi þess sama dags þegar ég reis úr rekkju. Ég vaknaði við lokkandi ilm úr eldhúsinu. Á dauða mínum átti ég von en ekki þessu. Bjarnfreður hafði látið hendur standa fram úr ermum og eldaði uppáhalds matinn minn í tilefni dagsins: Hnetusteik. Yfirleitt er slíkt hnossgæti aðeins á borðum hjá okkur á stórhátíðum en hún fékk svo skemmtilega uppskrift hjá Göllu að hún stóðst ekki mátið. Og steikin lukkaðist vel og rann ljúflega niður með steiktum rauðrófum, apríkósu-chutney og ísköldu engiferöli úr YggdrasilOg það var sko tekið hraustlega á! Í eftirrét fékk ég svo niðurskorin epli og appelsínur og tesopa.
Eftirá töluðum við Bjarnfreður um hvað þetta er nú heilbrigðara mataræði en það sem landinn stundar á þessum tíma, flestir troða nefnilega í sig rotnandi dýrahræjum og öðru úldmeti. Enda held ég að samviska mín hafi verið hreinni en margra annara þegar ég hjólaði i vinnuna um kvöldið.
Fyrir þá sem fá vatn í munninn við lestur þessa læt ég uppskriftina fylgja með. (Ég mútaði frú Göllu með brauðhleif).

Hnetusteik Göllu (Guðlaugar Ernu).

2 dl heslihnetur og/eða aðrar hnetur
½ dl sojamjólk eða hrísgrjónamjólk
1 dl haframjöl – eða hrísgrjónaflögur eða hirsiflögur
1 msk olía
1 laukur, fínt saxaðu
2 hvítlauksrif, pressuð
1 kúrbítur, rifinn
1 tsk sellerífræ
1 tsk timian
½ tsk rosmarin
1 ½ tsk salt
2 dl soðið hirsi eða hrísgrjón
1 dl sesamfræ
1dl hnetusmjör, ósætt úr heilsubúð
2 msk steinselja, smátt söxuð

1. Hnetur malaðar og þurristaðar
2. Haframjölið sett í bleyti í soja/hrísgrjónamjólkinni
3. Laukur og hvítlaukur létt mýktir í olíunni. Kúrbít og kryddi bætt út á.
4. Allt sett í hrærivél og blandað vel saman
5. Ef deigið er of þurrt er sett meiri soja/hrísgrjónamjólk, en ef það er of blautt er sett meiri haframjöl.
6. Sett í smurt, ílangt brauðform og bakað við 200°C í 50 mín með loki (álpappír) og í 10 mín án loks.

Wednesday, January 17, 2007

Uppeldi

Með Blaðinu í dag fylgdi merkilegur snepill; Börn og Uppeldi. Merkilegur tiltill því lítið er af greinum um uppeldi í blaðinu en meira af auglýsingum og þvaðri. Ég stórefast um að einhver menntaður uppeldisfræðingur hafi komið að gerð blaðsins. Þetta er dæmigert fyrir uppeldismál hér á landi. Hver er stefna Íslendinga í uppeldismálum? Engin er ég hræddur um. Börn eru hætt að fá uppeldi. Enda er afraksturinn upplausn. Ungt fólk fær uppeldi frá jafnöldrum. Ungt fólk í dag er bæði heimskara og óhæfara en þegar ég var að alast upp. Foreldrarnir hafa ekki tíma til að sinna börnum sínum enda eru þau ofttar en ekki tilkomin vegna losta í ölæði.
Það er löngu tímabært að setja á laggirnar uppeldisstofnanir sem tækju að sér alvöru uppeldi. Þetta er ekki fáránlegt heldur nauðsynlegt. Æskulýðsbúðir voru reknar í Sovétríkjunum og fleiri löndum með góðum árangri. Svona stofnun væri rekin af Ríkinu líkt og skólar. Börn væru send þangað frá foreldrum sínum strax við átta ára aldur og dveldu þar meira og minna fram á unglingsár. Þar væru þau greind af sérfræðingum og fengju aðhald og stuðning í samræmi við getu og hæfileika. Sérfræðingar mætu hæfileika þeirra og beindu þeim inn á brautir samkvæmt því. Þeir sem hafa greind fara í langskólanám, lægra greindir í iðnnám og nokkrir í íþróttir allt í samræmi við andlegt og líkamlegt atgervi hvers einstaklings. Í búðunum yrði börnunum haldið frá Interneti, klámi, tóbaki og áfengi. Ég er viss um að svona fyrirkomulag myndi skila samfélaginu hæfari einstaklingum en það unga fólk sem má sjá þvælast um göturnar gapandi og þvaðrandi í farsíma eða blaðskellandi milli tískuverslana í Kringlunni.
Æskan er framtíð þessa lands. Ef við foreldrar tökum ekki stjórnina þá munu einhverjir aðrir gera það.
Ef menntamálaráðherra þjóðarinnar væri hæfur þá væri ég fyrir löngu búinn að panta mér tíma hjá honum og bjóðast til að veita slíkri stofnun forstöðu. Ég er foreldri og uppeldisfræðingur. Ég hvet alla sem er málið skylt að veita þessu stuðning. Ég veit að margir eru sama sinnis og ég.

Monday, January 15, 2007

Rás 2



Ég tek heilshugar undir athugasemd Péturs Péturssonar fyrrverandi þuls hjá Ríkisútvarpinu, í lesendabréfi í Morgunblaðinu á föstudaginn. Hann kvartar yfir skorti á íslenskum lögum í útvarpi. Þessu er ég alveg sammála. Alltof mikið er leikið af erlendum lögum í Ríkisútvarpinu, sérstaklega á Rás 2. Sumt af þessu eru ekki einu sinni almennileg lög heldur einhverjir "smellir" sem þykja "smart" úti í heimi. Afhverju þarf Ríkisútvarpið að taka þátt í þessari múgsefjun? Er ekki nóg af útvarpsstöðvum sem útvarpa síbylju? Þarf Rás 2 ekki að standa vörð um Íslenska menningu, er það ekki hlutverk hennar og skylda? Ef þarf að leika erlend lög því ekki að kynna ungt fólk fyrir þjóðlagatónlist frá Norðurlöndunum? Þekkir Íslensk æska Hasse Anderson og Kvinneböskeband eða Hedningarna og Garmarna? Hafa Íslensk ungmenni einhverntíma fellt tár yfir tregablöndnu joki Samanna. Hvað með finnsk þjóðlög? Ég held að unglingar viti mest lítið um þessa tónlist. En ég held að þeir hefðu gaman af henni ef þeir ná að venjast henni.

Hér þarf að gera bragarbót á. Það er skylda Ríkissins að viðhalda og styrkja Íslenska menningu og tengslin við Norðulönd. Það er fyllsta ástæða til að veita fé í svona nokkuð.

Sunday, January 14, 2007

Meðalgreind þjóð



Ég hallast sífellt meira að því að Íslendingar séu meðalgreind þjóð. Ég er alltaf að lenda aftur og aftur í árekstrum við fólk sem virðist ekki skilja það sem ég er að reyna að segja. Ég er mjög gáfaður. Ég er til dæmis með fimm háskólapróf. Flestir sem koma á bensínstöðina sem ég starfa á eru um eða undir meðalgreind. Þeir sem ég vinn með eru undir meðalgreind. Ég hef vitsmunalega yfirburði yfir flesta sem ég hitti. Og af hegðun þjóðarsálarinnar verður ekki annað ráðið en hún stígi ekki í vitið. Nú eru fjögur ár síðan ég flutti hingað frá Svíþjóð. Og þvílík viðbrigði! Svíar eru bæði betur gefnir og betur menntaðir en þorri þessarar þjóðar. Hér vantar menningarbyltingu og það eigi síðar en strax!

Enn af Mao



Ég lendi oft í umræðum við fólk um Mao. Fáir menn hafa verið eins misskyldir og hann. Ég var meira að segja að ræða við kínverska konu um daginn sem hafði megnustu andúð á Mao. Ég komst að því að það voru einungis fordómar. Hún gat ekki rökstutt neitt af því sem hún sagði. Hún hafði aldrei lesið neitt af verkum hans, ekki einu sinni ljóð. Hún var bara búin að soga í sig rangtúlkanir og einhvers konar ofstæki gegn manninum. Hún vissi ekki einu sinni neitt um persónu hans. Ég spurði hana hvort hún vissi hvað hefði verið hans aðal áhugamál fyrir utan ljóðagerð. Hún stóð á gati. "Sund" sagði ég og gekk glaðlega á brott. Mér finnst alltaf gaman að hafa betur í rökræðum, sérstaklega þegar andstæðingurinn hefur ekkert fyrir sér. Hér er skemmtileg síða og fræðandi fyrir þá sem vilja kynna sér sannleikann um manninn Mao Zedung.