
Mikil endalaus andskotans ládeyða ríkir á öldum ljósvakans hér á landi. Er virkilega enginn sem leggur í þessar öldur? Fyrir utan gömlu og góðu Gufuna er fátt að hlusta á, nema ef til vill Útvarp Sögu. Þar eru oft góðir þættir og snarpar umræður. Þar fer Arnþrúður Karlsdóttir fremst í flokki. Hún er góður útvarpsmaður. En það er leiðinlegt hvað margir heimskingjar hringja inn til hennar, það er varla svo gott að meðalgreindur maður opni þar kjaftinn. Arnþrúður á betra skilið. Undiritaður hefur reyndar nokkrum sinnum slegið á þráðinn og blandað sér í umræður en oftast þó til að leiðrétta málvillur og staðreyndarugling. Annars hringdi ég á útvarp Sögu í gærkvöldi til að leiðrétta hvimleiða orðvillu. Það var samt ekki hjá Arnþrúði heldur hjá ónefndum karli. Hann var að ræða framboðsmál eldri borgara og stagaðist á orðinu "heldri" borgarar. Ég stóðst ekki mátið og benti honum á villu síns myrka vegar. Heldri borgari er aðalsmaður eða snobbhænsn og hefur ekkert með aldur að gera. Tvítugur maður getur verið "heldri borgari" ef hann býr í stéttarskiptu þjóðfélagi og er af "góðum og göfugum" ættum. Eldri borgari er annað mál. Hann er stéttlaus og einfaldlega gamall.
En aftur að útvarpsmálum. Sem betur fer er hægt að hlusta á útvarpið í gegnum internetið. Ég læt hér til gamans fljóta með fyrir áhugasama, slóð sem vísar á útvarpsstöð sem ég hlustaði mikið á þegar ég bjó í Svíþjóð. Svona á útvarp að vera!