Tuesday, February 6, 2007
Hljóðvarpið
Mikil endalaus andskotans ládeyða ríkir á öldum ljósvakans hér á landi. Er virkilega enginn sem leggur í þessar öldur? Fyrir utan gömlu og góðu Gufuna er fátt að hlusta á, nema ef til vill Útvarp Sögu. Þar eru oft góðir þættir og snarpar umræður. Þar fer Arnþrúður Karlsdóttir fremst í flokki. Hún er góður útvarpsmaður. En það er leiðinlegt hvað margir heimskingjar hringja inn til hennar, það er varla svo gott að meðalgreindur maður opni þar kjaftinn. Arnþrúður á betra skilið. Undiritaður hefur reyndar nokkrum sinnum slegið á þráðinn og blandað sér í umræður en oftast þó til að leiðrétta málvillur og staðreyndarugling. Annars hringdi ég á útvarp Sögu í gærkvöldi til að leiðrétta hvimleiða orðvillu. Það var samt ekki hjá Arnþrúði heldur hjá ónefndum karli. Hann var að ræða framboðsmál eldri borgara og stagaðist á orðinu "heldri" borgarar. Ég stóðst ekki mátið og benti honum á villu síns myrka vegar. Heldri borgari er aðalsmaður eða snobbhænsn og hefur ekkert með aldur að gera. Tvítugur maður getur verið "heldri borgari" ef hann býr í stéttarskiptu þjóðfélagi og er af "góðum og göfugum" ættum. Eldri borgari er annað mál. Hann er stéttlaus og einfaldlega gamall.
En aftur að útvarpsmálum. Sem betur fer er hægt að hlusta á útvarpið í gegnum internetið. Ég læt hér til gamans fljóta með fyrir áhugasama, slóð sem vísar á útvarpsstöð sem ég hlustaði mikið á þegar ég bjó í Svíþjóð. Svona á útvarp að vera!
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
6 comments:
Heill og sæll félagi!
Enn og aftur er ég þér hjartanlega sammála,nú þegar þú ræðir um ljósvakamiðla hér á landi. Þvílík endemis síbylja sem dynur á okkur daginn út og inn!!
Starfsmenn þessara stöðva eru ekki einu sinni talandi, kunna ekki íslensku , segjandi hérna og sko í öðruhvoru orði. Ég spyr: Er enginn sem ber ábyrgð á þessu? Sitja menn bara í sínum háu fílabeinsturnum og þykjast ekkert vita hvernig farið er með íslenska tungu og mennningu og eru jafnvel að spóka sig í útlöndum þvaðrandi einhverja vitleysu. Ég fyrir mitt leyti get ekki hlustað á aðra stöð en Útvarp Sögu þar sem hún Arnþrúður fer fram með rýting og stingur á stórum kýlum þannig að viðbjóðurinn spýtist út. Á þeim bænum er engin miskunn, Arnþrúður er hetja sem að mínu mati hefði átt að vera valinn kona ársins hjá því vandaða tímariti Ísafold sem hefur svo sannarlega líka stungið á mörgum kýlunum og þar vil ég helst nefna Grundarmálið þar sem við sáum það svart á hvítu að blessaða gamla fólkið okkar fer ekki í bað nema einu sinni í viku. Þetta er ólýsanlegur hryllingur sem þar birtist. Nú í nýjasta blaðinu kemur fram að Illugi Jökulsson er í meðferð í Kanada, hefði ekki verið ódýrara að senda hann á Byrgið til hans Guðmundar sem að mínu mati hefur verið eini maðurinn sem tekið hefur á fyllibyttum með festu og ábyrgð. Það þýðir ekkert að vera að væla og væla endalaust, tökum á málunum í eitt skipti fyrir öll. Arnþrúður, Guðmundur, og ritstjóri Ísafoldar takið höndum með okkur alþýðunni og stingið á kýlunum með okkur. Alþýðan krefst þess!!!
e.s. Talandi um hana Arnþrúði þá veit ég til þess að hún unir sér ekki hvíldar þegar kemur að Útvarpi sögu , ég veit fyrir víst að hún fór í langþráð frí á síðasta ári en unni sér ekki hvíldar í frínu heldur hringdi á hverjum degi og stundum oft á dag í hina ýmsu þætti og færði fróðleiksþyrstum íslendingum fréttir frá Costa Del Sol. Ótrúleg manneskja Arnþrúður.
Baráttukveðjur minn kæri Georg
Magnþór Hildibrands
e.s. Eigum við ekki að hittast?
persónulega finnst mér arnþrúður vera hálf illa upplýst og þröngsýn manneskja .... en það er bara mín skoðun
Post a Comment