Thursday, February 1, 2007

Hálkublettir

Ég er einn af þeim fjölmörgu Íslendingum sem hefi áhuga á veðri. Janúarmánuður hefur því verið sérstaklega áhugaverður fyrir mig því hann er einn sá kaldasti síðan mælingar hófust. Ég hef ekki farið varhluta af því þar sem ég nota ekki bíl heldur reiðhjól og tvo jafnfljóta sem mér voru áskapaðir við fæðingu.
Gróðurhúsaáhrif og hlýnun jarðar eru mikið áhyggjuefni fyrir mig jafnt sem aðra. Útblástur bíla og iðnaður er að gera jörðina óbyggilega. Regnskógarnir falla og verða líklega horfnir á næstu 20-30 árum ef ekkert verður að gert. Dýrategundum fer líka fækkandi og telja vísindamenn að 500 plöntum og dýrategundum sé útrýmt á degi hverjum.
En aftur að veðri. Sú breyting sem mér finnst einna athyglisverðust í Íslenskri veðráttu eru breytingar á frosti. Mikið finnst mér skrítið áhugaleysi fjölmiðla á því. Ég hef skrifað Veðurstofu ítarlegt bréf útaf því. Þeir svöruðu því engu. Einnig hef ég sent Morgunblaðinu bréfið til birtingar en á þeim bæ hafa menn ekki áhuga á frosti. Mér finnst frysta hraðar en áður. Það snöggfrystir skyndilega, á augabragði myndast hálkublettir og slysahætta. Aðfaranótt þriðjudags fylgdist ég með bifreið sem rann stjórnlaust niður brekkuna í Bolholti. Ökumaður hafði lent á hálkubletti eftir að snöggfrysti. Á mínum vinnustað passa ég vel uppá þetta og sendi starfsmenn oft út að salta í kringum bensínstöðina. Ég blanda saltið líka með sandi í hlutföllunum 60 á móti 40. Mér hefur sýnst það virka betur.

No comments: