Sunday, January 21, 2007

Morð á Íslandi?

Ég átti skemmtilegar deilur við viðskiptavin í nótt. Eftir að hafa keypt benzín bað hann mig um samloku með roast beef, sem var ekki til. Ég benti á nokkrar aðrar tegundir sem voru til en honum leist ekki á það. Þá bauð ég honum heimabakaða brauðið sem ég er að selja og húmusið sem Bjarnfreður gerði og ég er með til sölu á stöðinni. Hann vildi það ekki. Skrítið hvað margt fólk hefur mikla fordóma gegn svokölluðu heilsufæði. Hann hreinlega fussaði og sveiaði eins og ég hefði verið að bjóða honum eitur. Ég benti honum á að mannslíkaminn er ekki gerður til að brjóta niður kjöt. Menn eru ekki kjötætur. Og þar að auki er siðferðislega rangt að myrða dýr. Það er villimennska. Það er margsannað að flest ofurgreint fólk er jurtaætur. Ég hef verið jurtaæta frá fæðingu. Bjarnfreður hafði mig ekki einu sinni á brjósti heldur fékk ég möndlumjólk. Hún er næringarríkari en móðurmjólk. Í dag er ég grænmetisæta af hugsjónarástæðum. Fyrir mér er enginn munur á að drepa dýr eða mann. Að myrða kind og éta hana er fyrir mér jafn viðurstyggileg athöfn og að myrða manneskju og leggja hold hennar sér til munns. Sá sem drepur dýr er fyrir mér sekur um morð.
Viðbrögð mannsins komu mér verulega á óvart. Hann rauk upp á nef sér, hrópaði svívirðingar að mér og rauk svo á dýr. Þvílík viðbrögð. Enda var hann rökþrota. Kannski varð það honum ofviða að horfast í augu við sekt sína. Fólk grípur oft til óláta þegar það fer halloka í rökræðum. Ég hló bara að þessu. Maður getur nú ekki verið að æsa sig yfir öllum þeim furðufuglum sem slæðast inn á stöðina á nóttunni
Eftir því sem ég kynnist fólki betur þess betur líkar mér við smáfuglana.

7 comments:

Anonymous said...

Hjartanlega sammála þessu, hef verið grænmetisæta frá því ég var 16, vegan í þrjú ár. Meat is murder

Anonymous said...

Nú halda vísindmenn því fram að mannkynið hafi þróast frá því að vera bananaætur, í það að vera hræætur og heilabúið hafi ekki farið að stækka fyrr en „mannkynið“ fór að geta veitt dýr sér til matar enda er kjöt fullt af próteinum, vítamínum og alls kyns góðgæti. Sem sagt, ef við borðuðum öll grænmeti alla daga myndi heilinn hugsanlega skreppa saman aftur og við gætum í mesta lagi unnið allra einföldustu störf (eins og að vinna á bensínstöð).

Ellert Pétursson, Skagafirði.

Anonymous said...
This comment has been removed by a blog administrator.
Anonymous said...
This comment has been removed by a blog administrator.
Anonymous said...
This comment has been removed by a blog administrator.
Unknown said...

Þú segir eftirfarandi
"Það er margsannað að flest ofurgreint fólk er jurtaætur".

Það væri nú gaman ef þú skarpgreindur maðurinn gætir bent á rannsóknir því til stuðnings. Getur ekki verið að þú sért að meina að sumar ofurgreindar jurtaætur séu fólk.

Kv Gestur G

Anonymous said...

Flest dýr sem eru drepin til matar voru hvort eð er bara búin til til að vera étin. Ef ég væri t.d. kjúklingur á KFC kjúklingabúi myndi ég bara frekar vilja deyja en að vera þar!