Sunday, January 7, 2007

Bökunarhelgi

Það hefur verið í nógu að snúast síðustu daga. Ég og Bjarnfreður höfum staðið í bakstri alla helgina. Við bökum allt okkar brauð sjálf. Á meðan þjóðin flykkist í kauphallirnar með krítarkortin og bakar sér framtíðarvanda, bökum við speltbrauð. Brauðbakstur er prýðisgóð iðja, bæði afslappandi og skemmtileg. Ég tala nú ekki um þegar hráefnið er lífrænt og ilmandi af náttúrulegum krafti. Eftir allan hræringinn og hnoðið er svo gott að setjast niður, drekka te og finna hvernig brauðilmurinn fyllir íbúðina.
Við bökuðum tólf brauð. Ég er að hugsa um að taka með mér nokkur stykki í vinnuna í kvöld og bjóða til sölu. Sjáum til hvernig það gengur. Ég læt hér fylgja með uppskrift sem Bjarnfrður fékk hjá vinkonu sinni. Ég hef reynt hana og hún svíkur engan. Kanntu brauð að baka? Já, það kann ég!







SPELTBRAUÐ SIGRÚNAR
(Best er að nota sem mest af lífrænt unnum efniviði því það eykur bragðið til muna).
1 kg. speltmjöl
25 gr. ger
1 tsk. salt
600 ml. af volgu vatni (35-40 gráður)
1 msk. matarolía
15 gr. sesamfræ

1. Setið hveitið í stóra skál
2. Blandið gerinu í helminginn af vatninu og blandið vel
3. Blandið saltinu við afganginn af vatninu og bætið út í hveitið
4. Blandið olíunni saman við og hrærið vel með sleif
5. Hyljið deigið með klút og látið hefast í 1 mínútu
6. Hnoðið aftur. Skiptið deiginu í tvennt og setjið í tvö smurð brauðform
7. Dreyfið fræjunum yfir. Látið brauðin hefast í 30 mín.
8. Bakið í ofni við 220 gráður í 25-30 mín.

No comments: