Friday, January 12, 2007
Leiðtogar
Til að þjóð nái árangri og hagsæld fyrir alla þegna er nauðsynlegt að hafa góðan leiðtoga. Því er því miður ekki að fagna hér á landi. Núverandi ráðamenn og flokksbræður þeirra hafa fyrir löngu svikið alþýðu landsins til að hygla nokkrum fjársterkum aðilum. Baugsgróðinn rennur ekki til öryrkja. FL grúppan bætir ekki heilbrigðiskerfið eða kjör hinna lægst settu. Það sem við þurfum er skeleggur leiðtogi sem þorir að mæta fjármagnseigendum og brjóta niður hagsmunabandalög þeirra og leiða raunverulega auðsæld yfir landið.
Davíð Oddsson var slæmur leiðtogi. Íslenskt þjóðlíf er brunarústir eftir veru hans í Stjórnarráðinu. Og nú líður senn að endalokum félaga hans í Hvíta húsinu en hann hefur líklega fært meiri hörmungar yfir heimsbyggðina en nokkur forveri hans og voru þeir þó nokkuð duglegir. Hann er meira að segja kominn fram úr Ronaldi Regan sem var svo slæmur að það var ekkert annað að gera nema að "rek´ann".
Margir góðir leiðtogar hafa komið fram í heiminum. Sagan sannar það. Stalín hafði kjark og dugnað til að stýra stórri þjóð á erfiðum tímum. Vissulega þurfti hann oft að taka erfiðar ákvarðanir. Ég er sannfærður um að hann tók þær ákvarðanir af heilindum og með hag þjóðar sinnar fyrir brjósti. En það er nú einu sinni þannig að stórmenni verða yfirleitt fyrir mestri gagnrýni. Óvinir þeirra hrópa þá niður og bera uppá þá lygasakir að þeim liðnum til þess eins að sverta minningu þeirra. Einu sinni þekkti ég umdeildan skipstjóra sem þótti harður í horn að taka, menn báru honum misjafna söguna en horfðu framhjá því að hann fiskaði manna best. Mönnum lét vel að vinna undir styrkri stjórn hans. Hann náði árangri. Mao var annar slíkur. Og ég gæti nefnt fleiri: Lenín, Erich Honecker og auðvitað Karl Marx. Og nær okkur í tíma; Kim Il Jong, faðir Kim Jon-il. Honum tókst hið ómögulega, að skapa þjóðríki óháð neysluhyggju, laust við úrkynjun kapítalismans og í andstöðu við heimsvaldastefnu Vesturveldanna. Fáir leiðtogar hafa líklega verið eins misskildir og hann. Stórmenni. En mesti leiðtogi sem uppi er í dag er líklega forseti Venesúela, Hugo Chavez. Hann þorir að ögra Sámi frænda og setja hnefann í borðið. Hann þorir að gera gagngerar þjóðfélagsbætur og snúast gegn þeirri óheillaþróun sem virðist alls staðar fá að þróast eftirlitslaust. Hann eflir ríkisvaldið og afskipti þess af fólkinu (sem er jú Ríkið, eða hvað)? Þetta þurfum við hér: röggsaman byltingarmann sem þorir að gera þær umbætur sem til þarf: Ríkisvæðum Baug. Snúum við áður en það verður um seinann. Ríkisvæðum bankana á ný. Eflum Íslenska Ríkið og horfum stolt framan í sílspikaða nameríkann og segjum einum rómi: Nei, hingað og ekki lengra, við viljum ekki enda eins og þið!
Ef ekkert verður að gert eigum við eftir að enda sem enn eitt fylkið í Bandaríkjunum. Það yrðu napurleg örlög þessarar stoltu þjóðar. Hvað gerir Fjallkonan þá? Fær hún sér kannski kók og brosir? (A Coke and a smile). Nei, ætli það.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
7 comments:
Áhugavert heimasvæði, hugmyndir ekki nýjar af nálinni en sígíld réttlætishugsun. Ert þú sonur Bjarnfreðar Ingólfsdóttur kennara í Austurbæjarskóla? Ég sé að þú kennir þig við móður þína.
Ananomo Geographico.
Það er eitt að nefna að einhver skipper hafi verið leiðindagaur, en að nota það sem einhverja samlíkingu fyrir Stalín, mann sem hefur fleiri milljónir mannslífa á samviskunni í hverjum þeim pytti helvítis sem hann dvelur, það er út í hróa hött. Það sem þú mælir með í þessari grein þinni er hvorki meira né minna en einræði og ógnarstjórn og ekkert annað. Ég verð að segja eins og er að mér finnst það hreint út sagt fáránlegt að sjá viðlíka skoðanir viðraðar nú til dags, miðað við þá reynslu sem heimurinn hefur haft af einræðisherrum sem þessum.
AF GEFNU TILEFNI VIL ÉG BENDA Á AÐ ATHUGASEMDIR SEM INNIHALDA DÓNASKAP OG SVÍVIRÐINGAR VERÐA UMSVIFALAUST FJARLÆGÐAR AF VEFNUM. VERIÐ MÁLEFNANLEG EÐA BEINIÐ SKRIFUM YKKAR ANNAÐ.
Post a Comment