Sunday, January 14, 2007

Veðrið



Margir undrast nú snjóþungan í Reykjavík. Það hefur snjóað meira en lengi áður. Það var viðtal við veðurfræðing í gær í sjónvarpinu sem var alveg hlessa á þessu. Veðurfræðingarnir standa og gapa og vita ekkert í sinn haus. Það finnst mér skrítið. Ég var búinn að sjá þetta löngu fyrir. Ég hef fylgst með veðri í tuttugu ár. Ég nota loftvog að staðaldri, skrái niður hitastig kvölds og morgna. Á svölunum er ég með lítið tæki sem mælir vindhraða og ég hef meira að segja útbúið einfalt tæki sem mælir úrkomu. Það er trekt í mæliskál. Made in Georg! Að fylgjast með veðri er skemmtileg dægrastytting. Er það ekki líka þjóðaríþrótt Íslendinga?
Ég var fyrir löngu búinn að sjá fyrir þessar veðurbreytingar. Ég hef margoft haft samband við Veðurstofuna en aldrei mætt öðru en áhugaleysi á þeim bænum.
Reykjavík er orðin stórborg með öllum þeim aukaverkunum sem því fylgja. Vaxandi loftmengun hefur haft áhrif á veðurfar, aðallega koldíoxíð mengun frá útblæstri bíla. Það eru jepparnir sem eru að kalla þetta veður yfir okkur, (enda er þetta sannkallað "jeppa-veður"). Það verður að taka á þessu vandamáli af festu. Byrjum á því að banna ALLA bílaumferð í miðbænum. Látum svo jeppaeigendur borga fyrir þann skaða sem þeir eru að valda með því að láta þá borga Mengunarskatt. Það er bara sanngjarnt. Við verðum að snúa við þessari óheillaþróun áður en það verður um seinann!

No comments: