Tuesday, January 9, 2007
Meistari Mao og Spaugstofan
Í gærkvöld horfði ég á fyrsta þáttinn af fjórum um Mao formann á Ríkissjónvarpinu. Þessi þáttur var prýðisgóður og ég hlakka til að sjá hina. Mao hefur því miður ekki notið sannmælis í vestrænum fjölmiðlum. Þar er yfirleitt dregin upp dökk mynd af þessu stórmenni sögunnar. Skemmst er líka að minnast ævisögu hans sem kom út fyrir skömmu eftir Jung Chang og Jon Halliday. Það er ljót bók og þar er Mao sýndur sem skrímsli en ekki sá hugsuður og leiðtogi sem hann var. En svona verður þetta auðvitað þegar fjármagnsöflin stjórna fjölmiðlum og bókaútgáfu, þá hnýta þau óspart í þá sem bjóða þeim birginn. Í þættinum var dregin upp hlýleg mynd af Mao, viðtöl við vini hans og fjölskyldu og samstarfsmenn. Virkilega vandaðir þættir.
Annars hefur Ríkisútvarpið verið að sækja á að undanförnu. Spaugstofan hefur aldrei verið ferskari og beittari. Það er með þá félaga eins og vín, þeir bara batna með aldrinum. Við Bjarnfreður rákum upp ófáar hláturrokurnar síðasta laugardagskvöld. Ég held að Vinstri Grænir gætu jafnvel tekið þá félaga sér til fyrirmyndar að mörgu leiti. Oft er beittasta gagnrýnin sett fram sem skrýtla eða jafnvel háð. Afhverju voru þeir ekki fengnir til að sjá um Skaupið? Ég fagna líka auknu framboði af sænsku, leiknu efni. Í kvöld byrjar nýr sjónvarpsmyndaflokkur á gamansömum nótum um hjónakorn nokkur merkileg. Við Bjarnfreður ætlum ekki að missa af því enda standast fáir svíum snúning þegar kemur að gamanþáttagerð. Ríkisútvarpið ber að styrkja og varðveita og gæta þess að gráðugir og fálmandi fingur gráðugra kaupsýslara og annarra óvildarmanna nái ekki yfirhöndinni í þessari þjóðargersemi. Sjónvarpið stendur vörð um Íslenska menningu og Íslenska tungu. Íslenskan er hornsteinn menningarinnar. Án hennar erum við ekki þjóð! Það verður nefnilega ekki allt mælt í krónum.
En talandi um Ríkisútvarpið. Skaupið í ár var algjörlega fyrir neðan allar hellur. Ég horfði á það ásamt Bjarnfreði og Flemming. Hvorugu þeirra stökk bros. Bjarnfreður sofnaði meira að segja í miðju kafi, svo leiðinleg voru heimskupörin sem þjóðinni var boðið að horfa uppá. Mistök, en þau eru til að læra af og ég veit að þetta verður ekki endurtekið. Hendum út þessum stráklingum og prökkurum og fáum alvöru menn til verksins, menn sem kunna til verka og hafa gert þetta árum saman. Fáum Spaugstofuna!
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment