Monday, January 8, 2007

Háskólinn spilar rassinn úr buxunum!

Alveg er ég hneikslaður á þeirri lágkúrulegu fjáröflunarleið Háskóla Íslands að koma að rekstri spilakassa. Hvernig getum við staðið á þessu ef við viljum kallast siðmenntuð þjóð? Því ekki að auka fjárveitingar til Háskólans? Er það kannski andstætt hugmyndafræði nýkapítalismans? Ætlar einkaframtakið kannski að taka að sér rekstur Háskólans? Þetta er skömm og ekkert annað. Þorgerði Katrínu væri réttast að segja af sér. Svona vinnubrögð þekkjast ekki í Svíþjóð. Þar væri hlegið að þjóð sem ræki háskóla sína með happdrætti. Fyrir utan það þá kallar spilafíkn ógæfu yfir fólk. Menntunarstigi þjóðarinnar mun fara aftur ef fer sem horfir. Þetta er upphafið að úrkynjun og hruni kapítalismans. Hann metur allt eftir verðmæti en menntun verður ekki metin til fjár. Viljum við að íslendingar framtíðarinnar verði forríkur en menntunarlaus skríll?

1 comment:

Unknown said...

Mennt er máttur!!!!!!
Ég get ekki sagt annað en það sé kjánalegt að reka Háskóla fyrir peninga spilafíkla. Sérstaklega þegar maður veit að rétt eins og byssur eru hannaðar til þess að drepa þá eru spilakassar forritaðir til þess eins að mergsjúga fórnarlömb sín.

Ég er í sálfræðinámi í Háskólanum og í náminu er okkur kennt hvernig grunnlögmál hegðunar virka. Við forritun spilakassa eru lögmál hegðunar misnotuð gróflega. Þess vegna er í raun verið að svindla á fólki. HI veit (í gegnum vísindin!!!) hvernig hægt er að manipulera saklaust fólk og þegar venjulegur Jón Jóns setur hundraðkall í kassan veit hann ekki að það er búið að forrita kassann á þann hátt að sem mestar líkur eru á að hann flæki sig í neti og spili yfir sig og fjölskylduna eymd og volæði.

Skrítið að finnast allt í lagi að setja fólk á hausinn með vísindin að vopni en fetta fingur út í stripstaðinn sem Geiri Max ætlar að setja upp í 101. Hvað er að því að sjá soldið af túttum af og til. Þeir eru allavega mun færri sem setja sig og fjölskylduna á hausinn vegna dansandi striplinga.

Ég vill því leggja til að allir spilasalir verði lagðir niður og í þeirra stað komi túttustaðir í staðinn fjölskyldunnar vegna.
Gestur G