Þar sem ég vinn næturvinnu byrjaði Bóndadagurinn hjá mér ekki fyrr en að kvöldi þess sama dags þegar ég reis úr rekkju. Ég vaknaði við lokkandi ilm úr eldhúsinu. Á dauða mínum átti ég von en ekki þessu. Bjarnfreður hafði látið hendur standa fram úr ermum og eldaði uppáhalds matinn minn í tilefni dagsins: Hnetusteik. Yfirleitt er slíkt hnossgæti aðeins á borðum hjá okkur á stórhátíðum en hún fékk svo skemmtilega uppskrift hjá Göllu að hún stóðst ekki mátið. Og steikin lukkaðist vel og rann ljúflega niður með steiktum rauðrófum, apríkósu-chutney og ísköldu engiferöli úr YggdrasilOg það var sko tekið hraustlega á! Í eftirrét fékk ég svo niðurskorin epli og appelsínur og tesopa.
Eftirá töluðum við Bjarnfreður um hvað þetta er nú heilbrigðara mataræði en það sem landinn stundar á þessum tíma, flestir troða nefnilega í sig rotnandi dýrahræjum og öðru úldmeti. Enda held ég að samviska mín hafi verið hreinni en margra annara þegar ég hjólaði i vinnuna um kvöldið.
Fyrir þá sem fá vatn í munninn við lestur þessa læt ég uppskriftina fylgja með. (Ég mútaði frú Göllu með brauðhleif).
Hnetusteik Göllu (Guðlaugar Ernu).
2 dl heslihnetur og/eða aðrar hnetur
½ dl sojamjólk eða hrísgrjónamjólk
1 dl haframjöl – eða hrísgrjónaflögur eða hirsiflögur
1 msk olía
1 laukur, fínt saxaðu
2 hvítlauksrif, pressuð
1 kúrbítur, rifinn
1 tsk sellerífræ
1 tsk timian
½ tsk rosmarin
1 ½ tsk salt
2 dl soðið hirsi eða hrísgrjón
1 dl sesamfræ
1dl hnetusmjör, ósætt úr heilsubúð
2 msk steinselja, smátt söxuð
1. Hnetur malaðar og þurristaðar
2. Haframjölið sett í bleyti í soja/hrísgrjónamjólkinni
3. Laukur og hvítlaukur létt mýktir í olíunni. Kúrbít og kryddi bætt út á.
4. Allt sett í hrærivél og blandað vel saman
5. Ef deigið er of þurrt er sett meiri soja/hrísgrjónamjólk, en ef það er of blautt er sett meiri haframjöl.
6. Sett í smurt, ílangt brauðform og bakað við 200°C í 50 mín með loki (álpappír) og í 10 mín án loks.
Saturday, January 20, 2007
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
2 comments:
Er ekki Bjarnfreður mamma þín? Af hverju heldur hún upp á bóndadaginn með þér? Ég vann einu sinni með mæðginum sem bjuggu saman í Lada Sport bíl og lifðu saman eins og maður og kona. Er þessi grein þín dulið kall á hjálp?
Sævar Erlendsson
innkaupastjóri Hagkaupa á Selfossi
Mmmmmm, þessa uppskrift ætla ég mér að prófa fljótlega. Takk fyrir að deila henni með okkur.
Kær Kveðja,
Júlía
Post a Comment