Thursday, January 11, 2007

Öryggi

Þá er ég kominn heim eftir erfiða næturvakt. Það gekk á ýmsu í nótt. Það byrjaði um miðnætti. Nákvæmlega 23.55, þá komu tveir drukknir drengir og vildu nota salernið hjá okkur, (þurftu vísast að spræna bjórnum sem þeir höfðu þambað). Ég lenti í nokkrum útistöðum við þá og átti í erfiðleikum með að koma þeim út. Það er mjög algengt að svona lið slæðist á bensínstöðina á nóttunni. Ég reyni yfirleitt að leysa málin friðsamlega en stundum er fólk bara í þannig ástandi að tauti verður ekki við það komið. Ég hef oft þurft að hringja á lögregluna og láta fjarlægja fólk vegna skrílsláta. Ég þurfti þess þó ekki í þetta skipti. Félagarnir létu sig hverfa þegar ég tók upp símtólið en vönduðu mér ekki kveðjurnar. Seinna atvikið var öllu alvarlegra. Klukkan 16 mínútur yfir 5 í nótt birtist ungur maður sem var í annarlegu ástandi. Ég sá strax að hann var undir áhrifum fíkniefna. Þegar svona gaurar koma nálægt manni er best að fara að öllu með gát og taka enga sénsa. Ég narraði hann inn á klósett og læsti hann þar inni. Lögreglan kom svo og sótti hann klukkutíma síðar eða kl. 6.35.
Svona er nú lífið. Ég hef margoft óskað eftir því að fá öryggisvörð á stöðina á nóttunni en ekki fengið. Það er bara tímaspursmál hvenær eitthvað gerist. Fíkniefnin flæða yfir allt og lögreglan ræður ekki neitt við neitt. Samfélagið verður að fara að sporna við fótunum. Við verðum að segja fíkniefnunum stríð á hendur. Það þarf að auka framlög til lögreglunnar. Það verður að hækka skatta ef við ætlum að byggja hér velferðarþjóðfélag. Við eigum að taka okkur svía til fyrirmyndar í þessum málum. Setjum hátekjuskatt á forstjórana, látum þá borga til samfélagsins frekar en að kaupa sér lúxusvillur í útlöndum og einkaþotur. Kapítalisminn er úlfur í sauðagæru. Þetta ástand er tilkomið vegna hans. Það ríkir upplausn. Ísland er að verða galeiða og alþýðan á eftir að uppgötva einn daginn að hún er ekki farþegar um borð heldur ræðarar.

2 comments:

Anonymous said...

Sonur minn er 13 ára og mig bókstaflega kvíður 20 afmæli barnsins, þegar honum er gefinn laus taumur í bjór og vín, það sem mér finnst; Hækkum áfengisaldur upp í 25, þessir únglingar eru til alls líklegir, það á ekki að vera hægt að bara fara inn í verslun og kaupa sér áfengi. Það eru forréttindi að fá að drekka vín og mér þykir, ef ríkið ætlar að sjá um þessa starfsemi, að það viti hverjir það eru sem eru að versla við þá, eitthvað eins og umsókn til áfengiskaupa eða passi, þannig væri hægt að fylgjast með drykkju hvers og eins og sjá til þess að aðeins þeir sem standast umsókn geti hellt í sig þessum dómsdagssopa.

Georg Bjarnfreðarson said...

Þetta er frábær hugmynd. Ég hef lengi verið talsmaður þess að taka upp áfengis-kvóta líkt og frændur okkar í Færeyjum eru með. Þetta yrði með svipuðum hætti og í Fríhöfninni. Þannig væri hægt að stjórna og fylgjast með persónulegri neyslu hvers og eins. Áfengi yrði aðeins keypt með því að framvísa kennitölu. Hver kennitala mætti versla einungis ákveðið magn, td. einn kassa af bjór og eina sterka vínflösku á mánuði. En fyrir utan það er náttúrlega löngu tímabært að hækka áfengisverð og merkja vínflöskur með svipuðum aðvörunarorðum og eru á tóbaki. Þegar áfengið kemur inn fer vitið út!